Lög félagsins

Lög Félags háskólakennara sem samþykkt voru á aðalfundi félagsins 25. maí 2022

1. gr. Almennt

Félagið heitir Félag háskólakennara, félag háskólamenntaðra starfsmanna Háskóla Íslands og tengdra stofnana.
Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er:  
1. Að vinna að bættum kjörum og auknum réttindum félagsmanna og fara með samningsumboð fyrir félagsmenn.
2. Að upplýsa félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur.
3. Að stuðla að samvinnu og samstöðu meðal félagsmanna.
4. Að efla símenntun félagsmanna og stuðla að eflingu rannsókna.
5. Að vera í fyrirsvari fyrir félagsmenn gagnvart skyldum innlendum og erlendum félagasamtökum.

3. gr. Aðildarskilyrði

Félagsmenn í Félagi háskólakennara geta orðið starfsmenn Háskóla Íslands og tengdra stofnana* sem hafa a.m.k. BA/BS próf eða sambærilegt próf frá viðurkenndum háskóla. Þeir eru:

  1. Kennarar og sérfræðingar sem hlotið hafa hæfnisdóm (lektorar, dósentar, sérfræðingar, fræðimenn og vísindamenn, rannsóknalektorar, rannsóknadósentar og rannsóknaprófessorar), með ótímabundna ráðningu, ráðnir tímabundið með möguleika á ótímabundinni ráðningu eða ráðnir tímabundið.
  2. Aðjunktar, með ótímabundna ráðningu eða ráðnir tímabundið.
  3. Aðrir sem lokið hafa háskólaprófi og ráðnir eru til starfa við stjórnun, rannsóknir eða þjónustu, með  ótímabundna ráðningu, ráðnir tímabundið  með möguleika á ótímabundinni ráðningu eða ráðnir tímabundið.
  4. Aðrir þeir sem ráðnir eru tímabundinni ráðningu á grundvelli rannsóknastyrkja þ.m.t. nýdoktorar og nemendur í meistara- og doktorsnámi sem starfa við tímabundin verkefni undir leiðsögn kennara sinna.  

Kjörgengi og kosningaréttur eru háð því að félagsmenn hafi greitt félagsgjöld til félagsins síðustu sex mánuði fyrir aðalfund.

4.  gr. Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfund skal halda í síðasta lagi í maí ár hvert. Skal til hans boðað með rafrænum hætti með minnst þriggja vikna fyrirvara og er hann þá lögmætur. Stjórn getur ákveðið að skipuleggja staðarfund, rafrænan fund, eða blöndu af þessu tvennu. Dagskrá og tillögur um lagabreytingar, ef fram koma, skulu sendar félagsmönnum viku fyrir aðalfund. Á aðalfundi ræður meirihluti atkvæða þeirra sem á fundi eru og greiða atkvæði í öllum málum nema þeim, sem snerta breytingu á lögum félagsins. Til lagabreytinga þarf 2/3 atkvæða þeirra, sem á fundi eru og greiða atkvæði.

5.  gr. Dagskrá aðalfundar  

Dagskrá aðalfundar sé:
1. Lögð fram ársskýrsla
2. Lagðir fram kannaðir reikningar félagsins skv. alþjóðlegum stöðlum.
3. Ákveðið félagsgjald og hlutdeild félagsgjalda í kjaradeilusjóð sbr. 3. gr. reglna um sjóðinn.
4. Tillögur um lagabreytingar, ef fram koma.
5. Kosin stjórn, sbr. 8. grein.
6. Kosin kjörnefnd, sbr. 8. grein.
7. Kosnir tveir skoðunarmenn reikninga.
8. Önnur mál.

6. gr. Reikningsár

Reikningsár félagsins er almanaksárið.

7.  gr. Lagabreytingar

Tillögum um lagabreytingar skal skilað til stjórnar eigi síðar en tveim vikum fyrir aðalfund. Þess skal þá sérstaklega getið með dagskrá a.m.k. viku fyrir aðalfund að tillaga til lagabreytinga verði tekin til meðferðar á fundinum og efni hennar lýst.

8. gr. Stjórn og kjörnefnd

Stjórn félagsins skal skipuð átta mönnum, formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera, þremur meðstjórnendum auk eins meðstjórnanda til viðbótar sem er fulltrúi launþega á styrk sbr. 4. tl., 3. gr.  þeir eru  kjörnir skriflega, ef þess er óskað. Formann skal kjósa sérstaklega, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum. Stjórnarkjöri skal haga þannig, að árlega sé kosinn formaður, þrír stjórnarmenn úr hópi félagsmanna sbr. tl. 1 – 3, 3. gr. og einn fulltrúi launþega á styrk sbr. tl. 4, gr. 3. Formaður er kjörinn til eins árs, fulltrúi launþega á styrk til eins árs og aðrir stjórnarmenn til tveggja ára.

Á aðalfundi skal kjósa þriggja manna kjörnefnd, sem starfar til loka næsta aðalfundar. Tilkynningar um framboð til stjórnar skulu berast kjörnefnd ekki síðar en tveimur vikum fyrir aðalfund. Hafi ekki borist næg framboð skal kjörnefnd hlutast til um að afla nauðsynlegs fjölda framboða. Framboð til stjórnar sem kosið er um á aðalfundi skal birtast með fundarboði til aðalfundar.

9. gr. Skipan samninganefndar

Stjórn félagsins ræður málefnum félagsins með þeim takmörkunum, sem lög þessi setja. Stjórn félagsins er jafnframt samninganefnd þess og fer með gerð kjarasamninga fyrir þess hönd. Hún kallar til samningastarfa trúnaðarmenn, starfsmenn og sérfræðinga eftir þörfum.

10. gr. Stjórnarfundir

Stjórnarfundi skal boða með tryggilegum hætti, alla jafna með viku fyrirvara en með a.m.k. eins dags fyrirvara ef svo ber undir. Stjórnarfundur er ályktunarfær, ef fjórir stjórnarmenn hið fæsta sækja fund og sitja. Afl atkvæða ræður úrslitum á stjórnarfundi. Séu atkvæði jöfn, ræður atkvæði formanns (varaformanns). Gerðir stjórnarinnar skulu bókfærðar.

11. gr. Sjóðir félagsins

Sjóði félagsins skal ávaxta á sem hagfelldastan hátt, í banka eða ríkistryggðum skuldabréfum. Til að greiða út af vaxtareikningum félagsins skal stjórn félagsins samþykkja það með atkvæðum stjórnarformanns og tveggja annarra stjórnarmanna. Ef greiða á upphæð umfram 2,7 milljónir (mv. verðlag í mars 2021) skal kalla saman félagsfund og tilkynna fundarefni. Fundargerð skal fylgja hverri úttekt umfram eina milljón.

12. gr. Félagsfundir

Félagsfund skal að jafnaði boða með minnst þriggja daga fyrirvara. Þá er félagsfundur lögmætur, ef hann er löglega boðaður.

13. gr. Boðun félagsfundar

Skylt er stjórn að boða til félagsfundar, ef minnst tuttugu félagsmenn krefjast þess.

14. gr. Deildir innan félagsins

Heimilt er að stofna deildir innan félagsins, er starfi að tilteknum hagsmunamálum einstakra hópa félagsmanna. Þær setja sér eigin starfsreglur og fjárreiður þeirra eru aðskildar frá fjárreiðum félagsins.

15. gr. Samstarf með öðrum félögum

Félaginu er heimilt að starfa með öðrum félögum að einhverju eða öllu leyti að markmiðum félagsins sem fram koma í 2. grein.

* Með Háskóla Íslands og tengdum stofnunum er átt við þær stofnanir sem aðild eiga að stofnanasamningi Félags háskólakennara. Þær eru nú auk Háskóla Íslands og þeirra stofnana sem heyra undir háskólaráð: Landsbókasafn Íslands - Háskólabókasafn, Raunvísindastofnun Háskólans, Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi 11. febrúar 1969. Með þeim voru felld úr gildi lög Félags starfsmanna Háskóla Íslands frá 20. apríl 1942.

Breytingar voru gerðar á þeim á aðalfundum 16.11 1976, 01.11 1985, 23.05 1991, 15.05 1996, 21.05.1997, 11.05.1999, 22.05.2000, 28.05.2003, 01.06.2010, 23. maí 2012, 16. maí 2013, 27. maí 2014, 12. maí 2015, 19. maí 2016, 16. maí 2017, 23.maí 2018, 20. maí 2021 og 25. maí 2022.

Eldri lög